Berjumst áfram fyrir betri lífskjörum á 1. maí

Berjumst áfram fyrir betri lífskjörum á 1. maí

Annað árið í röð verða ekki hátíðarhöld vegna 1. maí. Það breytir því hinsvegar ekki að 1.maí er og verður baráttudagur launafólks. Annað árið í röð standa heildarsamtök launafólks saman að metnaðarfullri skemmti- og baráttudagskrá í Sjónvarpinu. 

Taktu þátt með því að skrá þig á viðburðinn.

Undanfarið ár hefur svo sannarlega verið viðburðarríkt. Í kjarasamningum, sem gerðir voru á síðasta ári, náðist stórt skref í áttina að styttingu vinnutíma hjá stéttarfélögum innan BSRB. Árangurinn náðist með mikilli samstöðu félagana og frábæru starfi BSRB.

Stytting vinnutíma í dagvinnu tók gildi 1. janúar síðastliðin. Misjafnt er hvaða útfærslur voru notaðar á vinnustöðum þar sem aðstæður eru mismunandi. Það sem var erfiðast í framkvæmd var fyrirkomulag neysluhléa. Í nýlegri samantekt kom í ljós að hjá langflestum ríkisstofnunum var valin sú leið að neysluhlé eru hluti af vinnutímanum og styttingin annaðhvort vikuleg eða hálfsmánaðarleg. Þannig næst hámarksstytting í 36 stundir á viku.

Á okkar baráttudegi mun stytting vaktavinnufólks taka gildi. Gert er ráð fyrir ákveðnu ferli við að útfæra styttinguna á hverjum vinnustað sem er útskýrt ákaflega vel á vefsíðunni Betri vinnutími. Einnig eru myndbönd sem útskýra málið myndrænt á Betrivinnutimi - YouTube. Ef styttingin á þínum vinnustað er ekki komin á hreint kynntu þér þá þessar upplýsingar.

 

 

Það er mín skoðun að vinnutímastyttingin muni áfram verða baráttumál í næstu kjarasamningum. Tryggja þarf öllum launþegum hámarksstyttingu í 36 stundir og að neysluhlé verði sjálfsagður hluti af vinnutímanum. 

Í síðustu kjarasamningum við sveitarfélögin var ákveðið að stofna félagsmannasjóð sem fengi 1.24% af heildarlaunum starfsmanna til að úthluta eftir starfshlutfalli einu sinni á ári. Úr varð félagsmannasjóðurinn Katla. Framkvæmdin reyndist erfiðari og flóknari en gert var ráð fyrir af ýmsum orsökum en gert er ráð fyrir að greitt verði úr sjóðnum í fyrsta sinn fyrir 30. apríl.

Starfsemi F.O.S.Vest undanfarið ár hefur litast af vinnutímastyttingunni, Covid-19 og áframhaldandi vinnu við að skoða sameiningu við önnur félög á landsbyggðinni í samræmi við ályktun síðasta aðalfundar.

Eftir aðalfund í nóvember 2020 ákvað stjórn F.O.S.Vest að halda áfram sameiningarviðræðum við Starfsmannafélag Dala og Snæfellsnessýslu (SDS). SDS sleit sameiningarviðræðum í desember 2020.  Verið er að leita nýrra möguleika á sameiningu við önnur landsbyggðarfélög með það að leiðarljósi að hagur félagsmanna F.O.S.Vest verði sem best tryggður til framtíðar. Líklegt er að ég geti flutt ykkur nánari tíðindi af þeim vettvangi fyrr en síðar.

Þó að margt hafi áunnist undanfarin ár til að bæta kjör félagsmanna F.O.S.Vest þá er ljóst að við þurfum að berjast áfram fyrir betri lífskjörum og festa í sessi það sem þegar hefur áunnist. Þetta gerum við með samstöðu heima fyrir og með öðrum BSRB félögum.

Skrifstofan verður lokuð 16.apríl 2021

Skrifstofan verður lokuð 16.apríl 2021

Skrifstofan verður lokuð föstudaginn 16.apríl 2021.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Hægt er að senda póst á fosvest@fosvest.is eða hafa samband í gegn um spjallið.

Vaktavinnufólk - takið þátt í að meta betri vinnutíma!

Vaktavinnufólk - takið þátt í að meta betri vinnutíma!

Ert þú búin(n) að taka þátt í könnun vegna styttingar vinnuvikunnar á vaktavinnustöðum sem samið var um í kjarasamningum opinberu stéttarfélaganna vorið 2020? Nú er innleiðing á þessum mestu breytingum á vinnutíma opinberra starfsmanna í áratugi langt komin og skiptir miklu að fylgjast með hvernig til tekst.

 

Nú þurfum við sem stóðum að þessum samningum, bæði samtök launafólks og opinberir launagreiðendur, þína hjálp. Við stöndum nú fyrir spurningakönnunum meðal vaktavinnufólks þar sem viðhorf til og árangur breytinganna er mældur. Það skiptir miklu að sem flestir þeirra sem eru í vaktavinnu taki þátt í könnuninni til að fanga viðhorf til breytinganna svo hægt sé að meta árangurinn sem best.

 

Gallup sér um gerð könnunarinnar sem send var fyrr í mánuðinum á vinnunetfang vaktavinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum. Við hvetjum alla sem hafa fengið könnunina til að svara svo við fáum sem nákvæmastar niðurstöður. Það tekur ekki langan tíma að svara könnuninni.

 

Að könnuninni standa: ASÍ, BHM, BSRB, Fíh, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

Ef spurningar vakna má hafa samband við tomas@gallup.is og karl@bsrb.is.

 

 

Skrifstofan lokuð fyrir heimsóknum

Skrifstofan lokuð fyrir heimsóknum

Í ljósi aðstæðna hefur skrifstofu félagsins verið lokað tímabundið.

Hafðu endilega sam­band við okkur ef við getum aðstoðað þig.

Sendu okkur tölvupóst á fosvest@fosvest.is

Einnig er hægt að hafa samband í gegn um netspjallið

Og svo er auðvitað hægt að hringja í síma 456 4407